Fótbolti

Bröndby fékk slæman skell

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stefán Gíslason kom inn á sem varamaður í dag.
Stefán Gíslason kom inn á sem varamaður í dag. Mynd/Vilhelm

Stefán Gíslason og félagar í Bröndby máttu sætta sig við stórt tap fyrir Silkeborg, 4-1, í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Með sigri hefði Bröndby farið upp að hlið Esbjerg í öðru sæti deildarinnar en liðið er nú í fjórða sætinu með sautján stig, fjórum á eftir toppliði OB.

Esbjerg getur reyndar komið sér á toppinn með sigri á AGF á morgun.

Stefán Gíslason kom inn á sem varamaður á 66. mínútu en þá var staðan þegar orðin 4-0 fyrir Silkeborg. Bröndby tókst að klóra í bakkann með marki á 82. mínútu.

Viktor Bjarki Arnarsson var í byrjunarliði Nybergsund sem gerði 3-3 jafntefli við Mjöndalen í norsku B-deildinni í dag. Viktor Bjarki fór af velli á 73. mínútu.

Nybergsund er í sjötta sæti deildarinnar og virðist eiga litla möguleika á að vinna sér sæti í norsku úrvalsdeildinni. Það er þó ekki útilokað.

Þá var einnig leikið í sænsku B-deildinni í dag. Hannes Þ. Sigurðsson og Ari Freyr Skúlason voru báðir í byrjunarliði GIF Sundsvall sem gerði 1-1 jafntefli við Trollhättan í dag.

Ari Freyr var tekinn af velli á 43. mínútu, væntanlega vegna meiðsla, og Hannes Sigurðsson á 58. mínútu.

Þá gerði Norrköping markalaust jafntefli við Väsby í sömu deild. Gunnar Þór Gunnarsson lék allan leikinn fyrir Norrköping en Stefán Þór Þórðarson var ekki í leikmannahópi liðsins í dag.

GIF Sundsvall er í þriðja sæti deildarinnar með 44 stig en það sætir veitir umspilsrétt við lið úr úrvalsdeildinni. Norrköping er hins vegar í bullandi fallbaráttu og er nú í fimmta neðsta sæti, aðeins tveimur stigum frá fallsæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×