Sport

Sundgallar valda fjaðrafoki - Ellefu heimsmet fallið í Róm

Ómar Þorgeirsson skrifar
Paul Biedermann.
Paul Biedermann. Nordic photos/AFP

Mikil umræða hefur nú skapast innan sundheimsins vegna „flotgallanna" sem margir sundmenn hafa klæðst undanfarið en alls ellefu heimsmet hafa fallið á Heimsmeistaramótinu sem nú fer fram í Rómarborg á Ítalíu hjá sundfólki sem notar gallana.

Bob Bowman, þjálfari Bandaríkjamannsins Michael Phelps, er allt annað en sáttur með notkun gallanna en Phelps varð að játa sig sigraðann í fyrsta skiptið síðan árið 2005 gegn flotgallamanninum Paul Biedermann í 200 metra skriðsundi.

Þjóðverjinn Biedermann setti um leið heimsmet í greininni en hann var í sundgalla úr hundrað prósent polyurethane-efni sem stjórn alþjóða sundsambandsins (FINA) hefur þegar ákveðið að banna frá og með árinu 2010. Bowman vill láta banna gallana og það strax.

„Þetta gengur ekki lengur. Sportið er búið að tapa sögu sinni. Það voru mistök að byrja að leyfa sundgallana og það ætti að banna þá strax en ekki bara á næsta ári," segir Bowman.

Phelps er sjálfur sammála um að banna ætti sundgallana en tekur þó ekkert frá frábærum sigri Biedermann sem sló einnig sjö ára gamalt heimsmet Ian Thorpe í 400 metra skriðsundi á mánudag.

„Ég tapaði ekki fyrir sundgalla. Ég tapaði fyrir frábærum íþróttamanni. En þótt tækninni fleyti áfram þá finnst mér að ákveðnir hlutir í sundi eigi að vera óhagganlegir," segir Phelps.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×