Fótbolti

Fjögur krossbandaslit á 28 dögum hjá Íslendingaliðinu IFK Göteborg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnar Sigurðsson hefur horft á eftir fjórum liðsfélögum í erfið hnémeiðsli.
Ragnar Sigurðsson hefur horft á eftir fjórum liðsfélögum í erfið hnémeiðsli. Tommy Holl

Það er óhætt að segja að sænska liðið IFK Göteborg hafi verið óheppið með meiðsli á síðustu vikum en fjórir leikmenn liðsins hafa slitið krossbönd á einum mánuði. Með IFK Göteborg spila einmitt Íslendingarnir Ragnar Sigurðsson og Hjálmar Jónsson.

Fyrstur til að slíta krossbönd var hinn 20 ára gamli varamaður Petter Björlund og gerðist það á æfingu.

Næstur í röðinni var varnarmaðurinn Nicklas Carlsson í bikarleik á móti Gefle en hann sleit einnig liðband í hné og verður frá í um níu mánuði.

Þriðji liðsmaður IFK Göteborg til að slíta krossband var hinn 18 ára sóknarmaður Robin Söder en það gerðist í leik með 21 árs landsliði Svía í undanúrslitaleik á EM á móti Englandi.

Fjórði og síðasti leikmaður IFK Göteborg til að slíta krossbönd var landsliðsmaðurinn og fyrirliðinn Adam Johansson sem hefur spilað við hlið Ragnars Sigurðsson í vörn IFK.

Håkan Mild, íþróttastjóri IFK Göteborg, segir liðið hafi verið að leita af sóknarmönnum fyrir viku en nú þurfi liðið að finna sér varnarmenn til þess að bregðast við þessum meiðslafaraldi.

"Við horfum nú til Norðurlanda," sagði Mild í viðtali við Aftonbladet og hver veit nema að Íslendingunum gæti fjölgað hjá sænska liðinu.

 












Fleiri fréttir

Sjá meira


×