Körfubolti

NBA í nótt: Meistararnir í vandræðum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dwight Howard í leiknum í nótt.
Dwight Howard í leiknum í nótt. Nordic Photos / Getty Images
Boston tapaði í nótt fyrir Orlando í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Austurdeildarinnar í NBA-körfuboltanum í nótt, 117-96. Þar með tók Orlando 2-1 forystu í einvíginu.

Dwight Howard fór mikinn í leiknum fyrir Orlando sem lék á heimavelli í nótt. Howard skoraði sautján stig, tók fjórtán fráköst og varði fimm skot.

Rashard Lewis bætti við 28 stigum fyrir Orlando og Hedo Turkoglu 24. Rafer Alston tók út leikbann í nótt fyrir að slá til Eddie House í síðasta leik liðanna.

Paul Pierce náði sér loksins á strik og skoraði 27 stig. Rajon Rondo var með fimmtán.

Boston náði að minnka 20 stig forskot í sjö í fjórða leikhlutanum áður en Orlando tók aftur öll völd í leiknum og kláraði hann með stæl.

LA Lakers vann Houston, 108-84, á útivelli og náði þar með 2-1 forystu í einvígi liðanna í undanúrslitum Vesturdeildarinnar. Houston vann fyrsta leikinn nokkuð óvænt á heimavelli Lakers en þeir síðarnefndu náðu að hefna fyrir það í nótt.

Kobe Bryant skoraði 33 stig fyrir Lakers. Lamar Odom var með sextán stig og þrettán fráköst. Derek Fisher tók út leikbanní nótt en í hans stað var Jordan Farmar í byrjunarliðinu og var með tólf stig og sjö stoðsendingar.

Ron Artest var rekinn af velli í öðrum leiknum í röð, í þetta sinn fyrir gróft brot á Pau Gasol á lokamínútu leiksins.

Yao Ming var með nítján stig og fjórtán fráköst fyrir Houston. Artest var með 25 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×