Fótbolti

Ronaldo: Ég er ekki bjargvættur Real

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Það hefur lítið gengið hjá Real Madrid síðan Cristiano Ronaldo meiddist. Liðið hefur tapað tveim leikjum, gert eitt jafntefli og aðeins sigrað einn leik. Steininn tók þó úr er liðið tapaði fyrir Alcorcon í spænska bikarnum.

Ronaldo segir að þess verði ekki langt að bíða að hann stígi á völlinn aftur.

„Mig er farið að klæja ansi mikið í fæturna að spila aftur því það er það skemmtilegasta sem ég geri. Að spila og hjálpa liðinu," sagði Ronaldo.

„Við erum ekki í góðum málum en fólk verður að átta sig á því að ég er enginn bjargvættur liðsins. Ég er bara leikmaður sem vill hjálpa liðinu," sagði Portúgalinn hógvær.

„Þetta ljóta tap í bikarnum er að baki. Það er enginn ánægður og enginn átti von á þessu. Liðið spilaði ekki vel en við verðum að bera höfuðið átt. Heimurinn ferst ekki þótt Real Madrid hafi tapað 4-0," sagði Ronaldo sem verður væntanlega kominn á ferðina í næstu viku nema seiðkarlinn Pepe fari að stinga í vúdú-dúkkuna sína.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×