Íslenski boltinn

Dragan: Frábær sigur fyrir Þór/KA

Ómar Þorgeirsson skrifar
Frá leik Þórs/KA og KR síðasta sumar.
Frá leik Þórs/KA og KR síðasta sumar. Mynd/Auðunn

Dragan Stojanovic þjálfari Þórs/KA var vitanlega í skýjunum með sögulegan 2-1 sigur liðs síns gegn KR í Pepsi-deild kvenna í kvöld en þetta var í fyrsta skiptið sem norðanstúlkur vinna KR í efstu deild kvenna.

„Þetta var frábær sigur fyrir Þór/KA að vinna loksins KR í efstu deildinni og ég er mjög sáttur með þetta. Við vorum að spila frábærlega fyrsta hálftímann í leiknum og þetta var það besta sem ég hef séð til liðsins í sumar og við skorum tvö mörk. Eftir það féllum við skiljanlega aðeins til baka og KR fékk færi til þess að skora. Í seinni hálfleik var jafnræði með liðunum og KR skoraði svo í lok leiksins en sigurinn var okkar," segir Dragan.

Þór/KA komst upp í fjórða sæti deildarinnar með sigrinum og er nú sex stigum á eftir toppliðum Vals og Breiðabliks. Dragan vonast til þess að lið sitt nái að blanda sér í toppbaráttuna en veit að það verður erfitt.

„Við töpuðum illa gegn Val og Breiðablik í fyrri umferðinni en við ætlum að gera betur næst. Við reynum okkar allra besta til þess að ná toppliðunum en það verður erfitt og við tökum bara einn leik í einu. Annars er mikið eftir af mótinu og þá á mikið eftir að gerast því deildin er nú jafnari og skemmtilegari en í fyrra. Það eru engir auðveldir leikir í deildinni og við vitum að við verðum að mæta tilbúnar til leiks í hvern leik," segir Dragan ákveðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×