Sport

Arreola: Ég er þakklátur fyrir að Haye sé hræddur

Ómar Þorgeirsson skrifar
Chris Arreola.
Chris Arreola. Nordic photos/AFP

Þungavigtahnefaleikamaðurinn Chris Arreola mun mæta WBC-þungavigtarmeistaranum Vitali Klitschko í hringnum 26. september næstkomandi en hann stökk á tækifærið eftir að David Haye dró sig til baka úr fyrirhuguðum bardaga gegn Klitschko.

Vitali lét síðar hafa eftir sér í viðtölum að Haye væri einfaldlega of hræddur til þess að mæta sér eða bróður sínum Wladimir og þess vegna hafi hann bakkað út úr fyrirhuguðum bardögum við þá en ekki vegna meiðsla eða mislukkaðra samningarviðræðna eins og Bretinn hélt fram.

Nú hefur Arreloa tekið stokkið inn í deilurnar og líst því yfir að hann sé Haye þakklátur fyrir að vera hræddur við Vitali.

„Ég fæ nú tækifæri til þess að berjast gegn einum af bestu ef ekki þeim besta þungavigtarhnefaleikamanni í heimi og ég verð að segja að ég er þakklátur David Haye fyrir að hann sé hræddur við Vitali," segir Arreola í bloggfærslu á netmiðlinum Fight Hype.

Arreola er enn taplaus á sínum ferli en hann hefur unnið alla 27 bardaga sína og þar af 24 þeirra með rothöggi. Það verður spennandi að sjá hvað hann gerir gegn hinum reynslumikla Vitali Klitschko.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×