Fótbolti

Dómarinn í leik Frakka og Íra: Ekki mér að kenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hansson í leiknum fræga.
Martin Hansson í leiknum fræga. Mynd/AFP
Sænski dómarinn í leik Frakka og Íra í umspilsleiknum fræga á dögunum hefur nú tjáð sig í fyrsta sinn um allt fjaðrafokið sem varð í kjölfar hans. Thierry Henry notaði þar vinstri höndina greinilega við að leggja upp jöfnunarmark Frakka án þess að Martin Hansson eða félagar hans í dómaratríóinu tækju eftir því.

Martin Hansson var í viðtali hjá staðarblaðinu Sydöstran en hann segist þar vonast til að hann fái tækifæri til að dæma í lokaumferð Meistaradeildarinnar sem fram fer 8. og 9. desember.

„Þetta er búin að vera svakaleg vika. Ég get ekki tjáð mig um neitt sem tengist leiknum og það er ekki mín ákvörðun. Þetta eru reglur FIFA sem voru settar til þess að verja dómara á meðan rannsókn stendur yfir," sagði Hansson við blaðið.

„Ég velti því þó fyrir mér hvort þetta starf sé þess virði að þurfa að þola alla þessa auðmýkingu," sagði þessi 38 ára gamli Svíi sem hitti alla sænsku dómaranna í vikunni á árlegri ráðstefnu þeirra. Hansson segir þann mikla stuðning sem hann fékk þar hafa hjálpaði honum mikið við að komast í gegnum þennan storm.

„Ég hef þó áttað mig á því eftir að hafa fengið frábæran stuðning að þetta var ekki mér að kenna. Þetta var óheppilegt fyrir Íra en það var ekki okkur dómurunum um að kenna hvernig þetta fór," sagði Hansson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×