Sport

Isinbayeva bætti heimsmetið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Isinbayeva kampakát í kvöld.
Isinbayeva kampakát í kvöld. Nordic Photos / AFP

Yelena Isinbayeva bætti í kvöld eigið heimsmet í stangarstökki kvenna á Gullmóti í frjálsum íþróttum sem fór fram í Zürich.

Isinbayeva stökk 5,06 metra og bætti metið um einn sentimeter. Það er örlítil sárabót fyrir vonbrigði hennar á heimsmeistaramótinu í Berlín þar sem henni mistókst að stökkva yfir byrjunarhæðina.

Hún hefur alls á sínum ferli sett fimmtán heimsmet utandyra og tólf innandyra.

Þá var einnig beðið með eftirvæntingu eftir keppni í 100 metra hlaupi karla á mótinu í kvöld. Heimsmethafinn Usain Bolt bar þar sigur úr býtum er hann kom í mark á 9,81 sekúndu.

Hann náði þar með ekki að bæta heimsmetið sem hann setti á HM í Berlín er hann hljóp á 9,58 sekúndum.

Annar í hlaupinu var landi hans frá Jamaíku, Asafa Powell en hann hljóp á 9,88 sekúndum. Darvis Patton frá Bandaríkjunum varð þriðji á 9,95 sekúndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×