Sport

Nadal líður eins og glæpamanni undir hertu lyfjaeftirliti

AFP

Rafael Nadal, stigahæsti tennisleikari heims, er afar óhress með stórlega hert lyfjaeftirlit með íþróttamönnum og segir þá upplifa sig eins og glæpamenn.

Íþróttamenn á borð við Nadal þurfa nú að láta vita af ferðum sínum í minnst einn klukkutíma á dag - alla daga vikunnar. Lyfjapróf eru tekin án nokkurs fyrirvara og ef íþróttamaðurinn skrópar í þrígang í próf á einu og hálfu ári, getur hann átt yfir höfðu sér keppnisbann.

Rafael Nadal er einn fjölmargra íþróttamanna sem lýst hafa yfir óánægju sinni með þessar hertu reglur Alþjóða Lyfjaeftirlitsins.

"Það er ekki sanngjarnt að ofsækja fólk á þennan hátt. Þeir láta manni líða eins og maður sé glæpamaður. Móðir mín veit ekki einu sinni hvar ég held til á hverjum einasta degi," sagði Nadal.

Andy Murray, fremsti tennisleikari Bretlandseyja, tekur í sama streng og sagði regluverk lyfjaeftirlitsins "grimmdarlegt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×