Körfubolti

Cleveland fór illa með meistara Lakers á þeirra eigin heimavelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það munaði oft litlu að það syði upp úr í leiknum.
Það munaði oft litlu að það syði upp úr í leiknum. Mynd/AP

Cleveland Cavaliers vann sannfærandi fimmtán stiga sigur á Los Angeles Lakers, 102-87, í stóra jólaleik NBA-deildarinnar í nótt. Sigur Cleveland var aldrei í mikilli hættu þar sem meistararnir voru ekki líkir sjálfum sér í þessum leik.

Lakers hafði unnið 16 af síðustu 17 leikjum sínum fyrir leikinn en sjálfstraust sem fylgir slíkri sigurgöngu var aldrei sjáanlegt hjá pirruðu og kraftlausu Lakers-liði.

Kobe Bryant var sá eini hjá Lakers sem reyndi en reyndi kannski alltof mikið. Kobe var með 35 stig,9 fráköst og 8 stoðsendingar en hann hitti aðeins úr 11 af 32 skotum sínum í leiknum. Pau Gasol var aðeins með 11 stig og liðið tapaði með 21 stigi þegar hann var inn á vellinum.

Mo Williams lék mjög vel með Cleveland og var með 28 stig, 7 stoðsendingar og 6 fráköst en LeBron James bætti við 26 stigum og 9 stoðsendingum. Shaquille O´Neal var með 11 stig og 7 fráköst á 22 mínútum og tróð boltanum fimm sinnum í körfu Lakers-liðsins í leiknum.

Ray Allen skoraði 18 stig og Rajon Rondo var með 17 stig, 13 fráköst og 8 stoðsendingar þegar Boston vann 86-77 sigur á Orlando Magic þrátt fyrir að leika án Paul Pierce og missa Kvein Garnett meiddan af velli. Boston vann annan leikhlutann 20-8 og lagði þar gruninn að sigrinum. Vince Carter var með 27 stig fyrir Orlando og Dwight Howard tók 20 fráköst en skoraði þó aðeins fimm stig.

Dwyane Wade var með 30 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar í 93-87 sigri Miami Heat á útivelli á móti New York Knicks. Danilo Gallinari var með 26 stig fyrir New York.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×