Fótbolti

Enginn Eiður Smári þegar Barcelona komst í bikaúrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar marki sínu í kvöld.
Lionel Messi fagnar marki sínu í kvöld. Mynd/AFP

Það verða Barcelona og Athletic Bilbao sem spila til úrslita í spænsku bikarkeppninni en seinni leikir undanúrslitanna í Konungsbikarnum fóru fram í kvöld. Athletic Bilbao vann þá 3-0 sigur á Sevilla en Barcelona gerði 1-1 jafntefli við Mallorca.

Javi Martinez, Fernando Llorente, og Gaizka Toquero skoruðu mörk Athletic Bilbao sem vann samanlagt 4-2 eftir að hafa tapað fyrri leiknum 1-2. Bilbao á möguleika á að vinna bikarinn í fyrsta sinn síðan 1984.

Barcelona var nálægt því að lenda 2-0 undir gegn Mallorca en topplið spænsku deildarinnar vann fyrri leikinn 2-0. Barcelona náði hinsvegar 1-1 jafntefli og vann því 3-1 samanlagt.

Mallorca komst í 1-0 á móti Barcelona þegar Gonzalo Castro skoraði á fyrstu mínútu seinni hálfleiks og skömmu síðar var Martín Cáceres rekinn útaf í liði Barcelona fyrir að fella umræddan Castro í vítateignum.

José Pinto varði hinsvegar vítaspyrnu José Luis Martí og varamaðurinn Lionel Messi tryggði síðan Börsungum jafntefli þegar hann skorað jöfnunarmarkið níu mínútum fyrir leikslok.

Eiður Smári Guðjohnsen var ekki í leikmannahópi Barcelona en fær vonandi að taka þátt í úrslitaleiknum sem verður spilaður 13. maí næstkomandi á Mestalla-leikvanginum í Valencia.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×