Fótbolti

Auðvelt hjá Barcelona

Samuel Eto´o skoraði 19. mark sitt á leiktíðinni í kvöld
Samuel Eto´o skoraði 19. mark sitt á leiktíðinni í kvöld AFP

Topplið Barcelona var nokkuð lengi í gang gegn Numancia í kvöld en vann að lokum nokkuð auðveldan 4-1 sigur á liðinu sem það tapaði fyrir í fyrstu umferðinni í sumar.

Eftir markalausan fyrri hálfleik hrukku Katalóníumennirnir loks í gang og eftir það var aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi.

Leo Messi og Samuel Eto´o komu Barcelona í 2-0 með mörkum á þriggja mínútna kafla strax í upphafi síðari hálfleiks og þó Jose Barkero hefði minnkað muninn fyrir Numancia á 61. mínútu, voru heimamenn ekki hættir.

Thierry Henry skoraði þriðja markið á 71. mínútu og skömmu síðar skoraði Messi sitt annað mark í leiknum og það 14. í deildinni í vetur.

Eiður Smári Guðjohnsen var á varamannabekk Barcelona í kvöld og kom ekki við sögu í leiknum.

Barcelona er í efsta sæti deildarinnar sem fyrr með 53 stig, en næst koma Real Madrid og Sevilla með 38 stig og eiga bæði leik til góða.

Villarreal lagði Osasuna 1-0 í hinum leiknum í kvöld og situr í fimmta sæti deildarinnar.

Numancia er í 17.sæti deildarinnar, sætinu fyrir ofan fallsvæðið, en hefur hlotið fimm stigum meira en Espanyol sem er í 18. sætinu. Osasuna er þar stigi á eftir en hefur betra markahlutfall en Mallorca sem er á botninum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×