Körfubolti

Lakers og Boston jöfnuðu metin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ron Artest lætur Kobe Bryant heyra það í leiknum í nótt.
Ron Artest lætur Kobe Bryant heyra það í leiknum í nótt. Nordic Photos / Getty Images

LA Lakers og Boston Celtics náðu bæði að jafna metin í rimmum sínum í undanúrslitum sinna deilda í NBA-körfuboltanum í nótt eftir að hafa tapað fyrsta leiknum nokkuð óvænt.

Í undanúrslitum í Vesturdeildinni vann Lakers sigur á Houston, 111-98, á heimavelli sínum í Los Angeles. Næstu tveir leikir fara fram á heimavelli Houston.

Kobe Bryant skoraði 40 stig fyrir Lakers og Pau Gasol bætti við 22 stigum og tók fjórtán fráköst. Ron Artest skoraði 25 stig fyrir Houston áður en honum var vikið af velli. Carl Landry skoraði 21 stig og tók tíu fráköst.

Lakers byrjaði leikinn af miklum krafti og hafði fjórtán stiga forystu eftir fyrsta leikhluta, 39-25. Houston náði þó að jafna metin og komast yfir í öðrum leikhluta en staðan var jöfn í hálfleik, 57-57.

Lakers náði svo undirtökunum snemma í síðari hálfleik og Houston náði aldrei aftur að brúa bilið.

Leikurinn var annars nokkuð skrautlegur en auk Artest var Derek Fisher einnig vikið af velli. Þeir Bryant, Artest, Luis Scola, Luke Walton og Lamar Odom fengu svo allir tæknivillu í leiknum.

Artest var vikið af velli í fjórða leikhluta eftir að honum og Kobe Bryant lenti saman. Artest hljóp upp að Bryant og ætlaði allt um koll að keyra. Artest vildi meina að Kobe hefði verið að gefa sér olnbogaskot og vildi svara fyrir sig. Hann gekk þó full vasklega fram og var fyrir vikið rekinn í sturtu.

Boston vann Orlando, 112-94, þar sem aukamennirnir voru í aðalhlutverki. Rajon Rondo náði þrefaldri tvennu og Eddie House skoraði 31 stig í leiknum. Rondo var með fimmtán stig, átján stoðsendingar og ellefu fráköst en þetta er í þriðja sinn í úrslitakeppninni sem hann nær þrefaldri tvennu.

Dwight Howard var með tólf stig og tólf fráköst fyrir Orlando og Rashard Lewis sautján stig.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×