Fótbolti

Eiður Smári: Tek ekki ákvörðun um framhaldið fyrr en líður á sumar

Ómar Þorgeirsson skrifar
Eiður Smári ásamt Hermanni og Kristjáni Erni á landsliðsæfingu í dag.
Eiður Smári ásamt Hermanni og Kristjáni Erni á landsliðsæfingu í dag. Mynd/Vilhelm

Landsliðsframherjinn Eiður Smári Guðjohnsen er mættur á klakann til að taka þátt í landsleiknum gegn Hollandi á Laugardalsvelli á laugardag.

Miklar vangaveltur hafa verið um framtíð kappans í boltanum en spænskir og breskir fjölmiðlar telja næsta víst að hann færi sig um set fyrir næsta keppnistímabil.

Eiður Smári á enn eitt ár eftir af samningi sínum við Barcelona en segist þó óviss um hvar hann muni spila á næstu leiktíð.

„Ég get ekkert sagt hvað verður. Ég ætla bara að einbeita mér að því að spila þessa tvo landsleiki sem framundan eru og svo kemst ég vonandi í frí með fjölskyldunni og næ aðeins að slappa af. Hvort sem ég verð áfram hjá Barcelona eða fer einhvert annað þá held ég að það komi ekki til með að ráðast fyrr en líður vel á sumarið," segir Eiður Smári sem var sagður í breskum fjölmiðlum vilja helst fara til Englands á dögunum. Hann vill nú samt ekki kannast við að hafa sagt neitt til um það.

„Það sem ég sagði var að það væri eins og flestir reiknuðu með því að ég færi aftur til Englands. Það er nú aftur á móti alls ekki eini kosturinn. Ég ætla að bara að sjá til og kannski prófa ég eitthvað ævintýri einhversstaðar annars staðar en ég hef verið áður. Ég var búinn að vera lengi á Englandi og svo í þrjú ár á Spáni og það er spilaður topp fótbolti í fleiri löndum en þessum tveimur," segir Eiður Smári en hægt verður að sjá lengra viðtal við Eið Smára í Fréttablaðinu á morgun.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×