Íslenski boltinn

Rakel Hönnudóttir verður með Þór/KA í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rakel Hönnudóttir er komin aftur heim í Þór/KA.
Rakel Hönnudóttir er komin aftur heim í Þór/KA. Mynd/Auðunn

Rakel Hönnudóttir er komin heim frá Danmörku og mun spila með Þór/KA í undanúrslitum Lengjubikars kvenna í kvöld. Þór/KA mætir þá Breiðabliki í Boganum á Akureyri. Rakel hefur leikið með danska liðinu Bröndby undanfarna mánuði.

Rakel mun þarna spila sinn fyrsta leik með Vesnu Smiljkovic sem kom frá Keflavík fyrir þetta tímabil. Vesna skoraði 3 mörk í 5 leikjum í riðlakeppninni. Rakel var langmarkahæsti leikmaður Þór/KA á síðasta tímabili en hún fékk silfurskóinn eftir að hafa skorað 20 mörk í 17 leikjum.

Bæði liðin leika án sterka leikmanna sem eru að keppa með 19 ára landsliðinu í Póllandi. Þór verður án þeirra Örnu Sif Ásgrímsdóttur og Silvíu Rán Sigurðardóttur en hjá Blikum munar mikið um að tveir markahæstu leikmenn liðsins í Lengjubikarnum í ár, Fanndís Friðriksdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir, eru út í Póllandi. Þær skoruðu saman 8 mörk í 5 leikjum í riðlakeppninni.

Leikur Þór/KA og Breiðabliks hefst klukkan 18.00 í Boganum en á sama tíma mætast Valur og Stjarnan í hinum undanúrslitaleiknum sem fram fer á Stjörnuvelli. Sigurvegararnir mætast síðan í úrslitaleik í Kórnum á laugardaginn kemur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×