Fótbolti

Perez gæti landað forsetaembætti hjá Real á mánudaginn

Perez landaði David Beckham til Real í fyrri forsetatíð sinni hjá félaginu
Perez landaði David Beckham til Real í fyrri forsetatíð sinni hjá félaginu NordicPhotos/GettyImages

Fátt virðist nú geta komið í veg fyrir að Florentino Perez verði aftur kjörinn forseti Real Madrid á Spáni.

Helsti keppinautur hans fyrir forsetakosningarnar í sumar dró framboð sitt til baka í dag.

Eduardo Garcia tilkynnti á heimasíðu sinni að hann hefði slitið samstarfi við bakhjarla sína í vikunni og fyrir vikið hefði honum ekki tekist að hnoða saman tíu milljarða króna bankaábyrgðinni sem forsetaframbjóðendur þurfa að leggja fram.

Kosið verður til forseta hjá Real Madrid þann 14. júní en ef enginn býður sig fram gegn Perez fyrir sunnudag - verður Perez kjörinn forseti á mánudaginn.

Þrír menn ætluðu upphaflega að bjóða sig fram gegn Perez, en þeir hafa allir dregið framboð sín til baka.

Perez er þekktastur fyrir að vera upphafsmaður Galactico tímabilsins í sögu Real Madrid fyrir nokkrum árum þegar hann fékk stórstjörnur á borð við Figo, Ronaldo, David Beckham og Zinedine Zidane til félagsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×