Körfubolti

NBA í nótt: Elton Brand stöðvaði Boston

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Elton Brand í leiknum í nótt.
Elton Brand í leiknum í nótt. Mynd/AP
Philadelphia stöðvaði sigurgöngu Boston í NBA-deildinni í nótt er Elton Brand tryggði fyrrnefnda liðinu sigur, 98-97, á heimavelli Boston.

Hvorki Louis Williams né Allen Iverson voru með Philadelphia í nótt en það virtist ekki koma að sök. Leikurinn var jafn og spennandi en þegar sjö sekúndur voru eftir af leiknum náði Brand að fylgja eftir skoti Marreese Speights og „blakaði" boltanum í körfuna.

Þeir Paul Pierce og Ray Allen náðu báðir skoti á körfuna á lokasekúndum leiksins en allt kom fyrir ekki. Philadelphia fagnaði því dýrmætum sigri.

Brand skoraði 23 stig í leiknum og tók átta fráköst. Andre Iguodala skoraði átján stig og Speights sautján.

Hjá Boston var Kevin Garnett stigahæstur með 21 stig og Allen kom næstur með sautján.

Toronto vann New Jersey, 118-95. Amir Johnson skoraði átján stig fyrir Toronto og Chris Bosh sextán, rétt eins og Andrea Bargnani og DeMar DeRozan.

Atlanta vann Utah, 96-83. Josh Smith skoraði sextán og Marvin Williams fimmtán en þetta var sjötti sigur Atlanta í röð.

Minnesota vann Sacramento, 112-96. Kevin Love var með 20 stig og sextán fráköst. Þetta var fimmta tvöfalda tvennan hans í röð.

Cleveland vann Milwaukee, 85-82. LeBron James skoraði 26 stig en Mo Williams kom næstur með sautján. James tók þar að auki tíu fráköst og gaf átta stoðsendingar en þetta var níundi heimasigur Cleveland í röð.

New Orleans vann Denver, 98-92. Chris Paul var með 30 stig, nítján stoðsendingar og níu fráköst. Peja Stojakovic skoraði 24 stig fyrir New Orleans sem lenti fimmtán stigum undir í fyrri hálfleik.

New York vann LA Clippers, 95-91. David Lee skoraði 25 stig, þar af sautján í síðari hálfleik. Chris Duhon skoraði sautján stig, gaf tíu stoðsendingar og tók átta fráköst fyrir New York.

Oklahoma City vann Detroit, 109-98. Kevin Durant skoraði 27 stig fyrir Oklahoma City.

Memphis vann Indiana, 107-94. Zach Randolph var með 26 stig og sextán fráköst og OJ Mayo 20 stig og sex stoðsendingar.

Houston vann Dallas, 116-108, í framlengdum leik. Kyle Lowry skoraði 26 stig og gaf tíu stoðsendingar. Aaron Brooks var með 25 stig og Luis Scola nítján stig og tíu fráköst.

Washington vann Golden State, 118-109, þar sem Gilbert Arenas fór á kostum og skoraði 45 stig og gaf þrettán stoðsendingar. Caron Butler kom næstur með 28 stig og tíu fráköst.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×