Sport

Keppni hafin á opna franska

Eiríkur Stefan Ásgeirsson skrifar
Ana Ivanovic á Roland Garros í morgun.
Ana Ivanovic á Roland Garros í morgun. Nordic Photos / AFP
Fyrsti keppnisdagur á opna franska meistaramótinu í tennis hófst nú í morgun en mótið stendur yfir næstu tvær vikurnar.

Meistarinn í einliðaleik kvenna, Ana Ivanovic frá Serbíu, er þegar komin áfram í aðra umferð eftir sigur á Söru Errani frá Ítalíu, 7-6 og 6-3.

Ivanovic hefur þó átt nokkuð erfitt uppdráttar síðan hún vann á opna franska í fyrra og er nú í áttunda sæti styrkleikalista mótsins.

Reyndar þurfti keppandinn í sjötta sætinu, Rússinn Vera Zvonareva, að draga sig úr keppni á síðustu stundu vegna meiðsla á ökkla.

Landa hennar, Maria Sharapova, komst ekki á styrkleikalista mótsins enda búin að vera frá vegna meiðsla í níu og hálfan mánuð. Hún mun þó keppa í París.

Keppni í einliðaleik karla verður gríðarlega spennandi. Spánverjinn Rafael Nadal hefur unnið á mótinu undanfarin fjögur ár en hans helsti keppinautur, Roger Federer frá Sviss, vann Nadal á leir nú fyrir skemmstu.

Keppt er á leiryfirborði í París en þar hefur Nadal haft mikla yfirburði á undanförnum árum.

Nadal hefur þó látið til sín taka á bæði hörðu yfirborði og grasi að undanförnu og vann til að mynda sigur á Federer í bæði úrslitum opna ástralska meistaramótsins í janúar síðastliðnum sem og á Wimbledon-mótinu í fyrra.

Nadal hefur keppni gegn Brasilíumanninum Marcos Daniel en Federer gegn Alberto Martin frá Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×