Sport

Ágætur árangur Íslendinganna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Verðlaunahafarnir kampakátir í dag.
Verðlaunahafarnir kampakátir í dag.
Þeir Stefán Jón Sigurgeirsson og Árni Þorvaldsson kepptu báðir í risasvigi karla á HM í alpagreinum sem fer fram í Val d'Isere í Frakklandi.

Stefán Jón var með rásnúmerið 57 en varð í 38. sæti af þeim 47 keppendum sem luku keppni. Árni fór næstur á undan Stefáni og varð í 42. sæti.

Stefán kom í mark á tímanum 1:27,47 mínútum en Árni á 1:29,61 mínútum.

Hinn 35 ára gamli Didier Cuche frá Sviss bar sigur úr býtum með nokkrum yfirburðum en hann kom í mark á 1:19,41 mínútum, 0,99 sekúndum á undan Peter Fill frá Ítalíu. Norðmaðurinn Aksel Lund Svindal varð þriðji, aðeins þremur hundraðshlutum úr sekúndu á eftir Fill.

Þetta voru fyrstu gullverðlaun Cuche á annað hvort HM eða Ólympíuleikum en hann hlaut silfur í risasvigi á ÓL í Nagano árið 1998 og svo brons í stórsvigi á HM í Are fyrir tveimur árum.

Það var einnig keppt í risasvigi kvenna í Val d'Isere í dag. Lindsey Vonn frá Bandaríkjunum var hlutskörpust, Marie Marchand-Arvier frá Frakklandi önnur og Andrea Fischbacher frá Austurríki þriðja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×