Körfubolti

Boston vann sjötta sigurinn í röð í NBA-deildinni í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Garnett fagnar í leiknum í nótt.
Kevin Garnett fagnar í leiknum í nótt. Mynd/AP

Boston Celtics er komið á mikla siglingu í NBA-deildinni en liðið vann sinn sjötta sigur í röð í nótt með því að vinna 90-83 útisigur á San Antonio Spurs. Kevin Garnett var með 20 stig og Ray Allen bætti við 15 stigum en þetta var áttundi sigur Boston-liðsins í níu útileikjum á tímabilinu.

Sigurinn kom Boston-liðinu einnig upp í efsta sæti Austurdeildarinnar við hlið Orlando Magic. Nýliðinn DeJuan Blair var með 18 stig og 11 fráköst hjá Spurs en Tony parker skoraði 17 stig og Tim Duncan var með 16 stig og 15 fráköst.

Aaron Brooks tryggði Houston 111-109 sigur á Golden State á vítalínunni 2,1 sekúndu fyrir leikslok en Brooks skoraði alls 25 stig í leiknum og var einn af sjö leikmönnum liðsins sem braut tíu stiga múrinn.

Monta Ellis var með 24 stig, 8 stoðsendingar og 6 fráköst hjá Golden State en þjálfari liðsins, Don Nelson, snéri aftur í nótt eftir að hafa verið frá í fimm leiki vegna lungnabólgu.

Carmelo Anthony var með 22 stig í öruggum 114-96 sigri Denver Nuggets á Miami Heat. Þetta þýðir að Dwyane Wade hefur tapað öllum sex leikjum sínum á móti Denver-liðinu á sjö árum sínum í deildinni. Dwyane Wade var með 25 stig og 10 fráköst í leiknum.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×