Körfubolti

Denver jafnaði metin eftir annan háspennuleik við Lakers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant var í strangri gæslu í leiknum. Hér er hann dekkaður af Carmelo Anthony og Chauncey Billups.
Kobe Bryant var í strangri gæslu í leiknum. Hér er hann dekkaður af Carmelo Anthony og Chauncey Billups. Mynd/GettyImages

Denver Nuggets vann 106-103 sigur á Los Angeles Lakers í öðrum leik liðanna í úrslitum Vesturdeildar í NBA-deildinni í körfubolta og staðan í einvíginu er því 1-1. Lakers vann 105-103 sigur í fyrsta leiknum sem fór fram á heimavelli Lakers í Staples Center eins og leikurinn í gær.

Ólíkt fyrsta leiknum þar sem Denver-liðið missti frá sér leikinn í lokinn þá voru gestirnir nú sterkari á æsispennandi lokamínútum leiksins. Kenyon Martin skoraði mikilvæga körfu og Chauncey Billups setti niður 3 af 4 vítum sínum til að landa sigrinum á síðustu 29 sekúndunum.

„Þetta verður langt einvígi. Við urðum bara að vinna þennan leik. Liðið er miklu sterkara andlega en í fyrra og þetta er frábær sigur," sagði George Karl, þjálfari Denver.

Carmelo Anthony var með 34 stig fyrir Denver, Chauncey Billups skoraði 27 stig og Linas Kleiza var með 16 stig. Þá var Nene með 6 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar.

„Það er alltaf erfitt að vinna á útivelli. Við erum sterkir andlega og við sýndum það með því að koma til baka eftri tapið í fyrsta leiknum og vinna," sagði Anthony en Denver klúðraði fyrsta leiknum. Anthony skoraði yfir þrjátíu stig fimmta leikinn í röð og varð fyrsti Denver-leikmaðurinn til að gera það síðan 1976.

Kobe Bryant var með 32 stig fyrir Lakers, Trevor Ariza skoraði 20 stig sem er það mesta sem hann hefur gert í úrslitakeppni og Pau Gasol var með 17 stig og 17 fráköst.

„Þeir eru komnir með heimavallarréttinn núna. Við þurfum því að fara til Denver og sjá hvort við getum ekki náð honum til baka. Það er ekki að ástæðulausu að við erum með besta útivallarliðið í deildinni," sagði Bryant.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×