Körfubolti

New Jersey tapaði átjánda leiknum og setti vafasamt met

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn New Jersey Nets eru í felum þessa dagana.
Stuðningsmenn New Jersey Nets eru í felum þessa dagana. Mynd/AP
New Jersey Nets setti nýtt met yfir verstu byrjun í sögu NBA-deildarinnar þegar liðið tapaði sínum átjánda leik á tímabilinu í nótt. New Jersey tapaði þá 101-117 fyrir Dallas Mavericks sem þýðir að ekkert lið hefur byrjað tímabilið jafn illa.

Nets-liðið bætti met Miami Heat (1988-89) og Los Angeles Clippers (1999) sem töpuðu bæði sautján fyrstu leikjum sínum. Dallas hitti úr 17 af fyrstu 19 skotum sínum og var komið með 27 stiga forskot snemma leik.

Dirk Nowitzki var með 24 stig fyrir Dallas og Jason Kidd bætti við 16 stigum, 10 stoðsendingum og 8 fráköstum. Chris Douglas-Roberts skoraði 24 stig fyrir Nets.

Al Horford var með 25 stig og var einn af níu leikmönnum sem skoruðu á annan tug stiga fyrir Atlanta Hawks í 146-115 sigri á Toronto Raptors. Atlanta hefur ekki skoraði meira í leik í 16 ár. Atlanta-vörnin hélt einnig Chris Bosh í 2 stigum á 16 mínútum en hann kom inn í leikinn sem sjöundi stigahæsti leikmaður deildarinnar með 25,2 stig í leik.

Kevin Durant var með 33 stig í 117-106 sigri Oklahoma City Thunder á Philadelphia 76ers. Jeff Green (19 stig), Nick Collison (18 stig) og Russell Westbrook (15 stoðsendingar) voru einnig áberandi.

Rashard Lewis var með 17 af 20 stigum sínum í þriðja leikhluta þegar orlando Magic skoraði 41 stig og lagði grunninn að 118-104 sigri á New York Knicks. Dwight Howard var með 19 stig og 10 fráköst en Wilson Chandler skoraði 24 stig fyrir New York. Þetta var níundi sigur Orlando í síðustu tíu leikjum.

Mike Conley var með 20 stig og Rudy Gay skoraði 14 af 20 stigum sínum í seinni hálfleik þegar Memphis Grizzlies unnu 97-95 sigur á Minnesota Timberwolves. Zach Randolph var einnig með 20 stig fyrir Memphis en Ryan Gomes skoraði mest fyrir Timberwolves eða 20 stig.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×