Fótbolti

Ronaldo: Við vinnum þrennuna á þessu tímabili

Ómar Þorgeirsson skrifar
Cristiano Ronaldo á góðri stundu með Real Madrid.
Cristiano Ronaldo á góðri stundu með Real Madrid. Nordic photos/AFP

Portúgalinn Cristiano Ronaldo hjá Real Madrid hefur greinilega ekki miklar áhyggjur af slöku gengi liðsins upp á síðkastið ef marka má nýlegt viðtali við kappann í spænska blaðinu AS.

Real Madrid er búið að tapa þremur af síðustu fimm leikjum sínum í deild, bikar og Meistaradeild en Ronaldo er engu að síður sannfærður um að félagið komi til með að uppskera ríkulega þegar yfirstandandi keppnistímabilinu lýkur og vinna þrennuna eftirsóttu.

„Félagið hefur átt erfitt uppdráttar eftir þetta gengi en andrúmsloftið er allt annað og betra núna í undirbúningnum fyrir leikinn gegn Getafe um helgina. Við munum ná jákvæðum úrslitum úr þeim leik og það er alls ekki þörf fyrir að skipta um knattspyrnustjóra.

Hann er á réttri leið með liðið og það kemur í ljós um leið og við komumst aftur á sigurbraut. Ég er raunar viss um að við munum vinna þrennuna á þessu tímabili," segir Ronaldo kokhraustur en ekki liggur ljóst fyrir hvenær hann getur byrjað að spila aftur eftir meiðslin.

Hann missir pottþétt af leiknum gegn Getafe um helginu og líklega einnig leiknum gegn AC Milan í Meistaradeildinni. Leikmaðurinn vonast hins vegar til þess að vera klár fyrir seinni leikinn gegn Alcorcon í konungsbikarnum en Real Madrid tapaði sem kunnugt er 4-0 í fyrri leiknum gegn c-deildarfélaginu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×