Fótbolti

Þjálfari Alcorcon: Real getur rústað okkur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Það er afar athyglisverður leikur í spænsku bikarkeppninni í kvöld. Neðrideildarliðið Alcorcon spilar þá síðari leik sinn gegn stórliði Real Madrid.

Alcorcon vann lygilegan sigur, 4-0, í fyrri leiknum en tapið er ein stærsta niðurlægingin í sögu Real Madrid.

„Við getum keppt við Madrid líkamlega en ef við gefum eftir á því sviði verður þetta erfitt. Við erum ekki vanir því að spila svona marga leiki í röð og höfum fáa leikmenn," sagði Juan Antonio Anguela, þjálfari Alcorcon.

„Ef þeir vilja rústa okkur þá munu þeir rústa okkur. Ef Madrid verður upp á sitt besta þá verður erfitt að komast áfram," sagði þjálfarinn og bætti við.

„Þeir nálgast þennan leik eins og þeir séu að fara að spila við Milan. Við erum bara neðrideildarlið að gera sitt besta. Við munum reyna að spila okkar leik en megum ekki gleyma við hverja við erum að spila. Ef Real vill þá getur liðið haldið okkur á eigin vallarhelmingi í 90 mínútur."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×