Íslenski boltinn

Freyr: Gott að komast á toppinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Freyr Alexandersson, þjálfari Vals.
Freyr Alexandersson, þjálfari Vals. Mynd/Valli

Freyr Alexandersson, þjálfari Vals, var hæstánægður með sigur síns liðs á Fylki í toppslag Pepsi-deildar kvenna í kvöld.

Valur vann 3-2 sigur í Árbænum eftir að hafa komist í 3-0 í upphafi síðari hálfleiks.

„Við höfðum mikla yfirburði í leiknum fyrstu sextíu mínúturnar og var ég mjög ánægður með spilamennsku okkar þá. Við náðum líka að skora þriðja mark leiksins sem er alltaf dýrmætt."

„En svo gerist eitthvað sem ég kann ekki að útskýra. Fylkir er með hörkulið og náði að koma sér aftur inn í leikinn með tveimur mörkum. Það var vel gert hjá þeim en að sama skapi afskaplega slappt hjá okkur."

„Við náðum þó að klára leikinn og það er gott að vera kominn á topp deildarinnar. Við tökum þó bara einn leik fyrir í einu og sjáum svo hvar við stöndum í lok leiktíðarinnar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×