Sport

Baltimore kláraði Miami

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Joe Flacco, til hægri, var hetja Baltimore í kvöld.
Joe Flacco, til hægri, var hetja Baltimore í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Fyrri leik kvöldsins í NFL-úrslitakeppninni er lokið. Baltimore vann þar sigur á Miami, 27-9, og tryggði sér þar með sæti í undanúrslitum Ameríkudeildarinnar.

Baltimore mætir Tennessee á laugardaginn kemur í undanúrslitunum en síðarnefnda liðið er í efsta sæti styrkleikalista Ameríkudeildarinnar.

Þetta var slæmur endir á tímabilinu hjá Miami en liðinu hafði gengið vel í deildakeppninni. Sérstaklega þegar mið er tekið af því að liðið vann aðeins einn leik á síðasta tímabili en náði svo góðum árangri á þessu, undir stjórn leikstjórnandans Chad Pennington.

Ekkert gekk hins vegar hjá Pennington og leikmönnum Miami í kvöld. Þeir áttu ekkert svar við varnarleik Baltimore og gáfu boltann ítrekað frá sér.

Það nýttu leikmenn Baltimore sér. Eftir að staðan var 3-3 eftir fyrsta leikhluta náði Ed Reed að komast inn í sendingu Pennington og skora snertimark eftir 64 jarda hlaup.

Le'Ron McClain hljóp svo með boltann í mark í þriðja leikhluta en Miami náði svo að svara með snertimarki í fjórða leikhluta.

En þá skoraði nýliðinn, leikstjórnandinn og hetja Baltimore-liðsins, Jeo Flacco, síðasta snertimark leiksins og tryggði sínum mönnum sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×