Fótbolti

Eiður lagði upp mark í sigri Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári í baráttunni í kvöld.
Eiður Smári í baráttunni í kvöld. Nordic Photos / AFP
Eiður Smári Guðjohnsen átti góðan leik er Barcelona vann 3-1 sigur á Mallorca á heimavelli í spænsku úrvalsdeildinni í dag.

Það var Aduriz sem kom gestunum óvænt yfir á fimmtándu mínútu leiksins. Yaya Toure missti boltann klaufalega frá sér og Aduriz hirti boltann, stormaði upp völlinn og skoraði gott mark.

Thierry Henry jafnaði svo metin á 31. mínútu. Barcelona fékk hornspyrnu og framlengdi Puyol boltann á Henry sem skoraði úr þröngri stöðu.

Minnstu munaði að Eiður kæmi Börsungum yfir undir lok fyrri hálfleiks er hann átti skot í slána eftir hornspyrnu Xavi.

Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, notaði allar þrjár skiptingarnar sínar, áður en Börsungar komust loksins yfir eftir að hafa verið með mikla yfirburði í leiknum.

Eiður Smári hafði komið sér fyrir á vítateigslínunni þegar sendingin kom inn á teig. Hann slapp við rangstöðugildru Mallorca og var því kominn einn gegn markverði þeirra. En í stað þess að skjóta sjálfur lagði hann boltann á varamanninn Iniesta sem skoraði auðvelt mark.

Toure bætti svo fyrir mistökin í fyrri hálfleik er hann skoraði þriðja mark Barcelona í uppbótartíma. Hann fékk boltann utarlega í teignum, lék á einn varnarmann og skoraði með föstu skoti.

Alls lyfti dómari leiksins gula spjaldinu tíu sinnum í leiknum og því rauða einu sinni. Josemi, varnarmaður Mallorca, fékk að líta rauða spjaldið í lok leiksins þegar hann fékk sitt annað gula spjald í leiknum.

Þetta var fyrsti leikur 17. umferðar spænsku úrvalsdeildarinnar og fjórtándi sigur Barcelona á tímabilinu. Liðið er nú með 44 stig en Sevilla kemur næst með 31 stig en á leik til góða.

Lionel Messi sneri aftur til Spánar úr jólafríi í gær og lék því ekki með Barcelona í kvöld. Hann hélt hins vegar landsliðsþjálfara sínum, Diego Maradona, félagsskap á áhorfendapöllunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×