Fótbolti

Pepe á yfir höfði sér keppnisbann

Pepe er hér í einbeittum samræðum við Fernando Torres
Pepe er hér í einbeittum samræðum við Fernando Torres Nordic Photos/Getty Images

Varnarmaðurinn Pepe hjá Real Madrid gæti átt yfir höfði sér langt keppnisbann eftir að hafa gengið á leikmenn Getafe með höggum og spörkum í ótrúlegum leik liðanna í gærkvöld.

Real Madrid vann leikinn 3-2 með dramatískum endaspretti en portúgalski landsliðsmaðurinn týndi þræðinum undir lok leiksins. Hann fékk rautt spjald fyrir að sparka í miðjumanninn Javier Casquero þar sem lá á vellinum og sló svo til Juan Albin í látunum sem á eftir fylgdu.

Þegar hann svo gekk af velli eftir brottvísunina lét hann í ljós miður fallegar skoðanir sínar á mæðrum dómara og sakaði þær um að stunda atvinnuveg sem bannaður er á Íslandi.

Þetta kemur allt fram í skýrslu sem dómari leiksins sendi frá sér, en þar kemur einnig fram að Pepe hafi brotið reglur þegar hann fór aftur inn á völlinn til að fagna sigurmarki Real eftir að hafa fengið rauða spjaldið.

Pepe baðst strax afsökunar á framferði sínu eftir leikinn og sagðist ekki geta fundið skýringar á hegðun sinni. Juande Ramos þjálfari Real reyndi að verja leikmanninn, en markvörðurinn Iker Casillas hafði ákveðna skoðun á málinu.

"Menn gera ekki svona þegar þeir klæðast treyju Real Madrid," sagði markvörðurinn.

Forseti Getafe er brjálaður yfir málinu og segir það hneyksli ef Portúgalinn fái hefðbundið þriggja leikja bann fyrir hegðun sína. "Pepe verður að fá misst tíu leikja bann. Svona hegðun á ekki að líðast."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×