Sport

Gaf þýski þjóðsöngurinn honum ofurkraft?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sebastian Bayer fagnar sigri í langstökki á EM um helgina.
Sebastian Bayer fagnar sigri í langstökki á EM um helgina. Mynd/GettyImages

Þjóðverjinn Sebastian Bayer tryggði sér Evrópumeistaratitilinn í langstökki með metstökki upp á 8,71 metra á Evrópumeistaramótinu innanhúss í frjálsum íþróttum sem fram fór í Tórínó á Ítalíu um helgina. Þetta er nýtt Evrópumet en gamla metið var 8,56 metrar.

Þetta er líka næstlengsta stökk sögunnar en aðeins Bandaríkjamaðurinn Carl Lewis hefur stokkið lengra innanhúss. Lewis náði að stökkva 8,79 metra árið 1984.

"Ég get ekki sagt ykkur hvernig ég fór að þessu," sagði Bayer við blaðamenn eftir að sigurinn var í höfn. Hann setti nýtt persónulegt met með því að stökkva 8,29 metra í upphafsstökkinu sínu. Hinn 22 ára gamli Bayer hafði stokkið lengst 8,17 metra innanhúss fyrir Evrópumótið en hann stökk 8,12 metra í undankeppninni.

"Ég var afslappaður eftir gott fyrsta stökk og vissi að ég hefði stokkið langt. Ég bjóst kannski við 8,30 eða 8,40 en varð alveg orðlaus þegar ég sá að ég hafði stokkið 8,71 metra," sagði Bayer sem sagði að það að heyra þýska Þjóðsönginn skömmu fyrir stökkið hafi kannski gefið honum aukakraft.

Miðað við að bæta sitt persónulega met um meira en hálfan metra má kasta því fram að hann hafi fengið ofurkraft við að hlusta á Das Deutschlandlied á hárréttum tíma. Þýski þjóðsöngurinn var þá spilaður þegar landa hans Ariane Friedrich tók við gullverðlaunum fyrir sigur í hástökki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×