Viðskipti innlent

Krónan ekki veikari síðan í byrjun desember í fyrra

Seðlabankinn hefur beitt sér í meiri mæli en á'ður síðustu vikur til að sporna við gengisfalli krónunnar.
Seðlabankinn hefur beitt sér í meiri mæli en á'ður síðustu vikur til að sporna við gengisfalli krónunnar.

Gengi krónunnar hefur veikst um 1,18 prósent það sem af er dags og hefur hún ekki verið veikari síðan í byrjun desember í fyrra, eða um það leyti sem gjaldeyrishöftin voru sett á til að sporna við hruni hennar.

Gengisvísitalan stendur nú í 235 stigum en fór hæst í 236 stigum um ellefuleytið í morgun, samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi.

Líkt og fram kom í Markaðnum í morgun skýrir yfirvofandi vaxtagjalddagi á ríkisbréfum upp á sjötíu milljarða króna að nafnvirði mikla gengislækkun krónunnar upp á síðkastið. Gjalddaginn hljóðar upp á sex milljarða króna, að mestu í eigu erlendra aðila, og má reikna með að um helmingur vaxtagreiðslunnar fari úr landi.

Þá vegur vöruflæði þungt í gengislækkuninni en eftirspurn er meiri nú en áður eftir erlendum gjaldeyri.

Þetta hefur mikil áhrif á gengissveiflur krónunnar en alla jafna þarf lítið að hreyfa við henni þar sem viðskipti með krónur á gjaldeyrismarkaði hafa upp á síðkastið ekki verið mikil.

Viðmælendur Markaðarins sögðu í gær flestir búast við frekari veikingar krónunnar næstu daga eða þar til áhrif vaxtagreiðslunnar fjara út.

Seðlabankinn hefur þó verið að beita sér á gjaldeyrismarkaði í talsvert meiri mæli en áður í því augnamiði að styðja við gengi krónunnar.

Gengi Bandaríkjadals stendur nú í 12,38 krónum, ein evra kostar 181,16 krónur, eitt pund 211,25 krónur og ein dönsk króna 24,3 krónur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×