Sport

Federer: Minn stærsti sigur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Federer kyssir bikarinn.
Federer kyssir bikarinn. Nordic Photos/Getty Images

Roger Federer var auðmjúkur og tilfinningaríkur eftir að hann hafði unnið opna franska meistaramótið á Roland Garros í dag.

Hann komst þar með í hóp aðeins fimm manna sem hafa unnið öll risamótin fjögur. Hann jafnaði þess utan met Pete Sampras yfir flesta risatitla en báðir hafa unnið fjórtán slíka.

„Þetta er líklega minn stærsti sigur. Ég var undir mikilli pressu í dag. Mér tókst það samt og tilfinningin er engu lík. Það var frábært að vera á pallinum sem sigurvegari að þessu sinni," sagði hinn 27 ára gamli Federer.

Andre Agassi afhenti honum bikarinn en Agassi er einmitt einn af þessum fáu mönnum sem hafa unnið öll risamótin.

„Andre sagði að það væru örlög mín að vinna og sagði líka að ég ætti það skilið," sagði Federer sem grét í verðlaunaafhendingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×