Skoðun

Að baka tóm vand­ræði

Spunameistarar Samfylkingarinnar finna sífellt ný orð til að slengja fram úr fjóshaugnum sínum. Þau nýjustu eru „kvenfyrirlitning" og „drengjaremba", sem óspart er atað á Framsóknarmenn. Ástæðan er gagnrýni okkar á vinnubrögð og þekkingarskort Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og margra stjórnarliða í Icesave-málinu.

Í stað þess að beita þekkingu og rökum eru vopnin helst hroki, yfirlæti og smjörklípur. Þar sem ég vil forðast að falla niður á sama plan og flestir stuðningsmenn Icesave vil ég benda á nokkur dæmi máli okkar til stuðnings.

Í fyrsta lagi hefur þingflokksformaður VG staðfest að ríkisstjórnin hafi nánast öll verið tilbúin til að samþykkja Icesave-samningana án þess að hafa lesið þá. Lestur samninganna er forsenda skilnings á þeim, nema stjórnarliðar séu farnir að nýta vinnuaðferðir miðla eða einhliða túlkun íslenskra embættismanna á flóknum alþjóðlegum samningum.

Í öðru lagi spurði ég forsætisráðherra um fullyrðingar hennar, fjármálaráðherra og fleiri um að hægt væri að hefja greiðslur úr þrotabúi Landsbankans inn á Icesave-lánið, um leið og búið væri að samþykkja samningana. Benti ég á að slitastjórn gamla Landsbankans hefði ekki í hyggju að greiða neitt úr þrotabúinu fyrr en komin væri niðurstaða í lagaleg ágreiningsmál. Sú niðurstaða mun liggja fyrir eftir 1-2 ár. Forsætisráðherra kom af fjöllum og sýndi þannig skýrt skilningsleysi sitt á málinu öllu.

Í þriðja lagi virðast þingmenn Samfylkingarinnar missa málið á Alþingi þegar reynt er að fá þá til að útskýra hvernig þjóðin á að standa undir erlendum skuldum þjóðarbúsins og hvaðan á að fá gjaldeyrinn. Viðskiptajöfnuður er óáhugaverður að þeirra mati og fullyrti einn þingmaður Samfylkingarinnar að hún hefði lítinn áhuga á að ræða krónur í þessu sambandi.

Ríkisstjórnin, undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur, hefur fátt annað gert frá því að hún tók við völdum en baka þjóðinni vandræði með vanþekkingu sinni og úreltum vinnubrögðum.

Því verður að breyta!

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×