Fótbolti

Stefán sagður á leið til Frakklands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stefán Gíslason, leikmaður Bröndby.
Stefán Gíslason, leikmaður Bröndby. Nordic Photos / AFP

Stefán Gíslason, leikmaður Bröndby í Danmörku, er nú sagður á leið til franska B-deildarfélagsins Metz.

Fjallað hefur verið um málið undanfarinn sólarhring í dönskum fjölmiðlum. Arnór Guðjohnsen, umboðsmaður Stefáns, sagði í gærkvöldi að það gæti reynst erfitt að finna Stefáni nýtt félag vegna tímaskorts. Félagaskiptaglugginn lokar í kvöld.

Engu að síður halda danskir fjölmiðlar því fram að Stefán sé á góðri leið með að ganga til liðs við Metz.

Stefán var ekki í leikmannahópi Bröndby sem gerði 1-1 jafntefli við FC Kaupmannahöfn í gær en Stefán hefur gegnt lykilhlutverki í liði Bröndby. Hann lagði upp mark liðsins í 3-1 tapi fyrir Herthu Berlín í Evrópudeildinni í síðustu viku.

Stefán gekk til liðs við Bröndby árið 2007 og skrifaði undir fimm ára samning. Hann var fyrirliði liðsins þar til í sumar er nýr þjálfari, Kent Nielsen, tók af honum fyrirliðabandið.

Ekki náðist í Stefán nú síðdegis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×