Fótbolti

AC Milan hefur áhuga á að kaupa fyrirliða Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carles Puyol hefur lyft Meistaradeildarbikarnum tvisvar sinnum á síðustu þremur árum.
Carles Puyol hefur lyft Meistaradeildarbikarnum tvisvar sinnum á síðustu þremur árum. Mynd/AFP
Carles Puyol, fyrirliði Barcelona, er ekki alltof sáttur með að félagið sé ekki tilbúið að framlengja samning hans nú þegar. Spænska blaðið El Mundo Deportivo segir frá því að nú gæti spænski landsliðsmaðurinn verið á leið frá liðinu og ítalska stórliðið AC Milan hefur mikinn áhuga.

Carles Puyol er með samning við Barcelona til ársins 2010 en samkvæmt heimildum El Mundo Deportivo þá vill hann fá tveggja ára framlengingu á honum. Forráðamenn Barcelona eru hinsvegar hikandi í að gefa honum nýjan samning.

AC Milan er þekkt fyrir að taka að sér leikmenn yfir þrítugt og framlengja ferill þeirra um nokkur ár en Carles Puyol er orðinn 31 árs. Forráðamenn AC Milan hafa aldrei farið leynt með aðdáun sína á Puyol en varaforseti félagsins, Adriano Galliani, hefur meira að segja líkt honum við Paolo Maldini.

Carles Puyol hefur leikið allan sinn feril með Barcelona alls 440 leiki með aðalliðinu. Næsti deildarleikur hans verður sá 300. fyrir Barca. Puyol hefur unnið Meistaradeildina tvisvar með félaginu og alls orðið þrisvar sinnum spænskur meistari.

Carles Puyol tók við fyrirliðastöðu Barcelona af Luis Enrique árið 2004. Hann hefur verið í landsliði Spánar undanfarin níu ár og hefur alls leikið 76 landsleiki og skorað í þeim 2 mörk.

Um leið og fréttist af óánægju Puyol með að fá ekki nýjan samning þá hefur enska liðið Manchester City einnig blandað sér inn í málið og sýnt spænska miðverðinum áhuga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×