Körfubolti

Orlando lagði Cleveland á útivelli

Rashard Lewis, sem skoraði þriggja stiga körfuna sem tryggði Orlando sigur, sést hér skora án þess að Zydraunas Ilgauskas, miðherji Cleveland, komi nokkrum vörnum við.
Rashard Lewis, sem skoraði þriggja stiga körfuna sem tryggði Orlando sigur, sést hér skora án þess að Zydraunas Ilgauskas, miðherji Cleveland, komi nokkrum vörnum við. MYND/GETTY

Orlando Magic vann óvæntan útisigur, 107-106, á Cleveland Cavaliers í fyrsta leik liðanna í úrslitum Austurdeildar NBA í nótt. Þetta var fyrsta tap Cleveland í úrslitakeppninni.

LeBron James skoraði 49 stig, tók 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar en það dugði ekki til. Rashard Lewis skoraði þriggja stiga körfu fyrir Orlando þegar 49 sekúndur voru eftir og sú karfa gerði út um leikinn.

LeBron haltraði af velli eftir leikinn en sagðist ekki vera meiddur. Hann var ósáttur við varnarleik Cleveland og sagði liðið hafa átt skilið að tapa

Dwight Howard var stigahæstur hjá Orlando með 30 stig og tók 13 fráköst, Rashard Lewis skoraði 22 stig og Hedo Turkoglu skoraði 15 stig og gaf 14 stoðsendingar.

„Þetta var mikilvægur sigur," sagði tröllið Howard eftir leikinn en hann braut meðal annars eina af skotklukkum vallarins með risatroðslu í byrjun leiksins. „Við börðumst allan leikinn og trúðum alltaf að við gætum unnið."

Næsti leikur liðanna verður í Cleveland annað kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×