Sport

Del Potro batt enda á langa sigurgöngu Federer

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Del Potro kyssir sigurlaunin.
Del Potro kyssir sigurlaunin. Nordic Photos / AFP
Argentínumaðurinn Juan Martin del Potro fagnaði í nótt sínum fyrsta sigri á risamóti í tennis eftir að hafa lagt Roger Federer í úrslitaviðureigninni.

Federer hafði unnið á þessu móti undanfarin fimm ár og hefði jafnað 84 ára gamalt met hefði honum tekist að vinna sjötta mótið í röð.

En Del Potro er fyrsti maðurinn fyrir utan Rafael Nadal sem fagnar sigri gegn Federer í úrslitum stórmóts. Del Potro er tvítugur og var í fyrsta sinn að spila í úrslitum stórmóts en hann lagði Nadal í undanúrslitunum.

Viðureignin var jöfn og spennandi en Del Potro fagnaði að lokum sigri í fimm settum, 3-6, 7-6, 4-6, 7-6 og 6-2.

Federer byrjaði vel og var á góri leið með að vinna annað settið þegar að Del Potro náði að svara fyrir sig. Hann vann svo settið í bráðabana.

Federer náði sér svo aftur á strik í þriðja setti og var aðeins tveimur stigum frá því að klára viðureignina í því fjórða. En allt kom fyrir ekki og Del Potro spilaði glæsilega í oddasettinu sem hann vann örugglega.

„Ég átti mér tvo drauma í þessari viku," sagði Del Potro eftir sigurinn. „Annar var að vinna á þessu móti og hinn að vera eins og Roger. Fyrri draumurinn er uppfylltur en ég á enn langt í land með að verða jafn góður og þú," sagði Del Potro og horfði á Federer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×