Fótbolti

Barcelona hefur unnið flesta útileiki í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dani Alves og Lionel Messi fagna marki þess síðarnefnda í gær.
Dani Alves og Lionel Messi fagna marki þess síðarnefnda í gær. Nordic Photos / AFP

Barcelona setti í gær met er liðið vann 3-2 sigur á Osasuna í spænsku úrvalsdeildinni. Engu liði hafði áður tekist að vinna átta útileiki í röð í deildinni.

Barcelona hóf sigurgöngu sína á útivelli er liðið vann 6-1 stórsigur á Sporting Gijon þann 21. september. Þá hafði liðið óvænt tapað fyrir nýliðum Numancia á útivelli, 1-0, í fyrstu umferð deildarinnar. Það er því enn eina tap Börsunga á tímabilinu til þessa.

Það mátti reyndar engu muna að Osasuna hefði unnið leikinn í gærkvöldi þar sem liðið komst í 2-1 forystu á 73. mínútu. En þeir Xavi og Lionel Messi sáu til þess að Barcelona ynni leikinn.

Real Madrid setti gamla metið með því að vinna sjö útileiki í röð tímabilið 1960-61. Real náði sama árangri árið 1991 og svo Villarreal árið 2007.

Næsti útileikur Barcelona í deildinni verður gegn Racing Santander þann 11. febrúar næstkomandi. Börsungar eiga tvo heimaleiki í millitíðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×