Fótbolti

Pellegrini: Vona að stuðningsmennirnir fyrirgefi okkur

Ómar Þorgeirsson skrifar
Knattspyrnustjórinn Manuel Pellegrini ásamt forstjóranum Jorge Valdano.
Knattspyrnustjórinn Manuel Pellegrini ásamt forstjóranum Jorge Valdano. Nordic photos/AFP

Það var ekki hátt risið á knattspyrnustjóranum Manuel Pellegrini hjá Real Madrid þegar hann svaraði blaðamönnum eftir vægast sagt vandræðalegt 4-0 tap gegn þriðju deildarliðinu Alcorcon, sem er einnig frá Madrid, í fjórðu umferð Konungsbikarsins á Spáni í gærkvöldi.

„Það er engin skýring eða afsökun til fyrir spilamennsku okkar í þessum leik. Eina sem við getum gert að vonast til þess að stuðningmennirnir fyrirgefi okkur. Ég er ekki að hugsa um starfsöryggi mitt á þessarri stundu heldur bara um næsta leik," sagði Pellegrini stuttorður í leikslok í gærkvöldi.

Seinni leikur liðanna fer fram á Santiago Bernabeu-leikvanginum eftir tvær vikur en spænskir fjölmiðlar eru ekki svo vissir um að Pellegrini verði enn við stjórnvölin þá. Talið er að starf knattspyrnustjórans hangi á bláþræði eins og er og ef sigur vinnist ekki gegn Getafe um helgina og AC Milan í næstu viku verði hann látinn fara.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×