Körfubolti

Phoenix tapaði fyrsta heimaleiknum á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og félagar í Cleveland fagna góðri körfu í nótt.
LeBron James og félagar í Cleveland fagna góðri körfu í nótt. Mynd/AP

Cleveland Cavaliers varð fyrsta liðið til að vinna í Phoenix á þessu NBA-tímabili þegar liðið vann 109-91 sigur í nótt. Phoenix Suns var búið að vinna alla tíu heimaleiki sína til þessa og alls 19 heimaleiki í röð.

LeBron James og Mo Williams voru í aðalhlutverki þegar Cleveland skoraði 15 stig í röð í fjórða leikhlutanum en þeir voru stigahæstir hjá Cavs, James skoraði 29 stig og Williams var með 24 stig. Steve Nash var með 18 stig og 10 stoðsendingar hjá Phoenix.

Sacramento Kings vann ótrúlegan 102-98 sigur á Chicago Bulls þrátt fyrir að lenda mest 35 stigum undir. Bulls-liðið var meðal annars 83-50 yfir þegar 7 mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Nýliðinn Tyreke Evans skoraði 23 stig fyrir Kings þar af 9 stig gegn 3 hjá öllu Chicago-liðinu síðustu tvær mínútur leiksins. Luol Deng (26 stig) og Derrick Rose (24 stig) voru atkvæðamestir hjá Chicago.

Tony Parker var með 19 stig í 103-97 sigri San Antonio Spurs á Los Angeles Clippers en alls skoruðu sjö leikmenn Spurs yfir tíu stig. Chris Kaman var með 23 stig og 15 fráköst hjá Clippers.

J.J. Redick var með 20 stig og Rashard Lewis skoraði 18 stig í 104-99 sigri Orlando Magic á Utah Jazz. Paul Millsap var með 23 stig fyrir Utah-liðið.

Ástralinn Andrew Bogut var með 31 stig og 18 fráköst í 84-81 sigri Milwaukee Bucks á Indiana Pacers. Roy Hibbert (16 stig) og Troy Murphy (14 stig og 12 fráköst) voru atkvæðamestir hjá Indiana.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×