Sport

Sérstök uppákoma í úrslitaleiknum á Opna franska

Ómar Þorgeirsson skrifar
Sérstök uppákoma.
Sérstök uppákoma. Nordicphotos/Gettyimages

Tenniskappinn Roger Federer lenti í sérstakri uppákomu í úrslitaleik hans gegn Robin Soderling á Opna franska mótinu um helgina þegar áhorfandi úr stúkunni stökk inn á völlinn og yfir netið þegar Svisslendingurinn var að búa sig undir að taka við uppgjöf frá Soderling.

„Þetta var mjög óþægilegt þar sem hann var kominn svo nálægt mér um leið og ég vissi ekkert hvað hann var að gera. Vanalega þegar þetta gerist þá horfa þeir á mann og biðjast afsökunar á því að hafa gert þetta og eru með sínar ástæður fyrir vitleysunni. Ég man eftir manninum sem hljóp inn á völlinn á Wimbledon mótinu og hann var eiginlega bara frekar fyndinn en ég veit ekkert hvað þessi maður ætlaði sér," segir Federer.

Maðurinn sem stökk inná völlinn var klæddur í treyju með áletruninni Switzerland á og reyndi að setja skyggnishúfu á hausinn á Federer án árangurs áður en öryggisgæsla vallarins tók hann fastan.

Uppákoman sló Federer þó ekki út af laginu og hann vann úrslitaleikinn en þetta var í fyrsta skiptið sem hann vinnur Opna franska mótið og nú hefur hann því unnið öll „Grand Slam" mótin.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×