Körfubolti

Houston burstaði LA Lakers

Aaron Brooks var frábær í liði Houston í kvöld
Aaron Brooks var frábær í liði Houston í kvöld Nordic Photos/Getty Images

Óvæntir hlutir gerðust í úrslitakeppni NBA deildarinnar í kvöld þegar Houston vann öruggan stórsigur á LA Lakers í fjórðu viðureign liðanna í annari umferðinni.

Lokatölur leiksins urðu 99-87 fyrir Houston en sigurinn var mun öruggari en tölurnar gefa til kynna.

Lakers vann lokaleikhlutann 33-16 en náði aldrei að ógna Houston-liðinu þrátt fyrir öflugan endasprett.

Það var minnsti maður vallarins sem bætti upp fyrir fjarveru þess stærsta.

Hinn smávaxni Aaron Brooks hjá Houston var hetja liðsins þegar hann skoraði 17 af 34 stigum sínum í þriðja leikhlutanum þar sem Houston náði 27 stiga forystu og stakk endanlega af.

Þetta var persónulegt met hjá kappanum en hann var einn þeirra sem tóku upp hanskann fyrir risann Yao Ming sem er fótbrotinn og kemur ekki meira við sögu í úrslitakeppninni.

Shane Battier skoraði 23 stig fyrir Houston, þar af fimm þrista, og Kyle Lowry skoraði 12 stig af bekknum. Luis Scola var með 11 stig og 14 fráköst. Ron Artest skoraði aðeins 8 stig og hitti úr 4 af 19 skotum sínum utan af velli.

Pau Gasol var atkvæðamestur hjá Lakers með 30 og hirti 9 fráköst, Kobe Bryant skoraði 15 stig og Shannon Brown 14.

Næsti leikur er í Los Angeles á þriðjudagskvöldið.

Á miðnætti í nótt eigast Boston og Orlando við fjórða sinni og er sá leikur sýndur beint á NBA TV sjónvarpsrásinni á Digital Ísland.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×