Körfubolti

Cleveland og Lakers bæði komin í 2-0 í sínum einvígum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant fagnar sigri Los Angeles Lakers í nótt.
Kobe Bryant fagnar sigri Los Angeles Lakers í nótt. Mynd/GettyImages

Bestu lið deildarkeppninnar í NBA-deildinni í vetur, Cleveland Cavaliers og Los Angeles Lakers eru bæði komin í 2-0 yfir í sínum einvígum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar eftir sigra í nótt. Portland Trail Blazers tókst hinsvegar að jafna metin á móti Houston Rockets.

Cleveland Cavaliers vann 94-82 sigur á Detroit Pistons á heimavelli sínum. Detroit tókst ekki mikið að hægja á LeBron James sem var með 29 stig, 13 fráköst og 6 stoðsendingar í leiknum. Hann fékk líka góða hjálp frá félögum sínum. Mo Williams var með 21 stig og Delonte West skoraði 20 stig. Hjá Detroit var Richard Hamilton stigahæstur með 17 stig.

Los Angeles Lakers er líka í góðum málum í sínu einvígi eftir 119-109 sigur á Utah Jazz. Kobe Bryant var með 26 stig, Pau Gasol skoraði 22 stig og Lamar Odom kom með 19 stig inn af bekknum. Það var ekki nóg fyrir Utah að Deron Williams skoraði 35 stig eða að Carlos Boozer væri með 20 stig og 10 fráköst. Utah-liðið er þar með búið að tapa 11 leikjum í röð í Staples Center.

Brandon Roy átti frábæran leik þegar Portland Trail Blazers jafnaði einvígið á móti Houston Rockets með 107-103 sigri. Roy skoraði 42 stig í leiknum og þá var LaMarcus Aldridge með 27 stig og 12 fráköst. Aaron Brooks skoraði 23 stig fyrir Houston.

 



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×