Fótbolti

Samuel Eto'o + 35 milljónir punda = Zlatan Ibrahimovic

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic og fjölskylda eru að fara flytja til Spánar.
Zlatan Ibrahimovic og fjölskylda eru að fara flytja til Spánar. Mynd/AFP

Barcelona og Inter Milan hafa nú náð samkomulagi um að skipta á framherjunum Zlatan Ibrahimovic og Samuel Eto'o en þau skipta ekki alveg á jöfnu því Barcelona borgar ítölsku meisturunum einnig 35 milljónir punda til viðbótar til að fá til sín Zlatan. Nú veltur það á Svíanum og Kamerúnmanninum að ná samningum við sín nýju lið.

Það fylgir líka samningunum að Barcelona mun lána Hvít-Rússann Alexander Hleb til Inter í eitt tímabil en félögin höfðu einnig samið áður um kaup Barcelona á brasilíska bakverðinum Maxwell frá Inter.

Zlatan Ibrahimovic er 27 ára gamall sænskur landsliðsframherji sem var markakóngur ítölsku deildarinnar á síðasta tímabili með 25 mörk. Hann skoraði alls 57 mörk í 88 leikjum fyrir Inter í Seríu A og Inter varð meistari öll þrjú árin. Zlatan hefur skorað 21 mark í 56 landsleikjum fyrir Svíþjóð.

Samuel Eto'o er 28 ára gamall kamerúnskur landsliðsframherji sem skoraði 30 mörk í 36 deildarleikjum með Barcelona á síðasta tímabili. Hann hefur alls leikið með félaginu í fimm ár og skorað 108 mörk í 145 leikjum en Eto'o vann spænsku deildina þrisvar sinnum og Meistaradeildina tvisvar sinnum með Barca. Eto'o hefur skorað 39 mörk í 80 landsleikjum fyrir Kamerún.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×