Íslenski boltinn

Rakel: Vitum að við getum alveg unnið titilinn í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rakel með Lengjubikarana eftir sigur Þór/KA í Kórnum í dag.
Rakel með Lengjubikarana eftir sigur Þór/KA í Kórnum í dag. Mynd/Óskar

„Þetta er alveg frábært," sagði Rakel Hönnudóttir, fyrirliði Þórs/KA, eftir að hún var nýbúin að lyfta fyrsta stóra bikar kvennaliðs félagsins. Þór/KA vann 3-2 sigur á Stjörnunni í úrslitaleik Lengjubikarsins í dag.

„Þetta var mjög dramatískur leikur en vendipunkturinn var þegar Sandra fékk rauða spjaldið. Hún hefur örugglega haldið að hún væri inn í teig. Við skoruðum allavega úr aukaspyrnunni og síðan vorum við ákveðnari eftir það," sagði Rakel.

Rakel skoraði sigurmark Þórs/KA í uppbótartíma. „Vesna fékk sendingu upp í hornið og gaf hann fyrir. Ég þurfti bara að leggja hann í markið," sagði Rakel hógvær.

Rakel hefur komið heim með látum frá Danmörku því hún hefur skoraði sigurmörkin í tveimur fyrstu leikjunum, fyrst í 1-0 sigri á Breiðabliki í undanúrslitum Lengjubikarsins og svo í 3-2 sigri á Stjörnunni í úrslitaleiknum.

„Það er mjög gaman að koma heim og ná að skora tvö svona mikilvæg mörk. Þetta mun hjálpa okkur inn í mótið," sagði Rakel sem hrósaði Þór/KA-stelpunum sem voru búnar að standa sig vel í vetur þrátt fyrir að það vantaði marga sterka leikmenn.

Rakel býst við skemmtilegu móti en nú er aðeins vika í að Pepsi-deild kvenna fari af stað. Þór/KA mætir Breiðabliki í fyrsta leik. „Þær voru skiljanlega alveg hundfúlar með að tapa fyrir okkur og koma alveg brjálaðar inn í þann leik. það verður hörkuleikur," segir Rakel og bætir við:

„Þessi deild verður miklu jafnari en hún hefur nokkurn tímann verið. Valur, Breiðablik, við, Stjarnan og Fylkir eru öll með mjög góð lið. Þetta verður mjög jafnt," segir Rakel en hún hefur mikla trú á sínu liði.

„Við erum búnar að vinna öll helstu liðin og höfum gert jafntefli við Val. Við vitum að við getum alveg unnið. Það verður ekki vandamálið að við höfum ekki trú á því að við getum unnið titlana í sumar," sagði Rakel að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×