Sport

Nadal vonast til að spila á Wimbledon

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Nadal.
Rafael Nadal. Nordic Photos / AFP

Rafael Nadal er enn vongóður um að hann geti spilað á Wimbledon-mótinu í tennis sem hefst síðar í mánuðinum en hann hefur átt við meiðsli að stríða.

Nadal er efstur á heimslistanum og á titil að verja á Wimbledon. „Ég mun gera allt sem ég get til að ég verði orðinn 100 prósent leikfær þegar að stærsta mót ársins í tennisheiminum hefst," sagði Nadal í yfirlýsingu sem kappinn gaf út í dag.

„Ég mun ekki spila á neinum velli, hvað þá aðalvellinum á Wimbledon ef ég er ekki 100 prósent klár."

„Framundan eru tvær erfiðar vikur, sérstaklega þar sem ég mun ekki fá tækifæri til að gera það sem mér finnst skemmtilegast að gera en það er að spila tennis."

Nadal hefur átt við meiðsli í báðum hnjám að stríða og hefur verið að spila þjáður undanfarna mánuði. Hann var sleginn úr leik í fjórðu umferð opna franska meistaramótsins en hann hafði unnið það mót fjögur ár í röð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×