Körfubolti

Enn ein framlengingin hjá Boston og Chicago

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pierce var flottur á lokasekúndunum í nótt.
Paul Pierce var flottur á lokasekúndunum í nótt. Mynd/GettyImages

Boston Celtics og Orlando Magic tóku 3-2 forustu í sínum einvígum í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í nótt og Portland Trail Blazers hélt sér á lífi með því að minnka muninn í sínu einvígi í 3-2.

Boston Celtics vann 106-104 sigur á Chicago Bulls eftir framlengingu en þetta var í þriðja sinn í fimm leikjum liðanna í einvíginu þar sem úrslitin ráðast í framlengingu. Í fyrri tveimur framlengdu leikjunum hafði Chicago unnið en nú var komið að Boston að vinna en Celtics-liðið er komið í 3-2 í einvíginu.

Paul Pierce skoraði þrjár körfur í röð á síðustu 77 sekúndunum í framlengingunni og tryggði Boston með því sigurinn. Pierce var með 26 stig í leiknum. Rajon Rondo hélt áfram að spila vel og var með 28 stig, 11 stoðsendingar og 8 fráköst og þá var Kendrick Perkins með 16 stig, 19 fráköst og 7 varin skot.

Ben Gordon skoraði 26 stig fyrir Chicago og Joakim Noah var með 11 stig og 17 fráköst. Derrick Rose var með 14 stig en jafnmarga tapaða bolta (6) og stoðsendingar.

Orlando Magic er komið í 3-2 eins og Boston eftir 91-78 sigur á Philadelphia 76ers. Dwight Howard var með tröllatvennu, skoraði 24 stig og tók 24 fráköst. Rashard Lewis var síðan með 24 stig en hjá Philadelphia skoraði Andre Iguodala 26 stig.

Brandon Roy og LaMarcus Aldridge voru báðir með 25 stig þegar Portland Trail Blazers hélt sér á lífi með 88-77 sigri á Houston Rockets en tap hefði þýtt sumarfrí. Staðan er nú 3-2 fyrir Houston. Luis Scola var stigahæstur hjá Houston með 21 stig en Yao Ming var með 15 stig og 12 fráköst.

Úrslitakeppnin - yfirlit

Austudeildin:

Cleveland Cavaliers 4-0 Detroit Pistons (Cleveland áfram)

Boston Celtics 3-2 Chicago Bulls

Orlando Magic 3-2 Philadelphia 76ers

Atlanta Hawks 2-2 Miami Heat

Vesturdeildin:

Los Angeles Lakers 4-0 Utah Jazz (Lakers áfram)

Denver Nuggets 3-1 New Orleans Hornets

San Antonio Spurs 1-4 Dallas Mavericks (Dallas áfram)

Portland Trail Blazers 2-3 Houston Rockets





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×