Sport

Federer stöðvaði sigurgöngu Nadal á leir

NordicPhotos/GettyImages

Roger Federer kom á óvart í dag þegar hann batt enda á frábæra sigurgöngu Rafael Nadal á leirvöllum með sigri í úrslitaleiknum á opna Madrid-mótinu í tennis.

Svisslendingurinn vann úrslitaleikinn 6-4 og 6-4 á klukkustund og 26 mínútum og var þetta aðeins annar sigur hans á Nadal á leirvelli í síðustu ellefu tilraunum.

Nadal var ef til vill þreyttur eftir æsilega fjögurra stunda undanúrslitaviðureign við Novak Djokovic í gær og náði sér aldrei á strik í úrslitaleiknum.

Þetta er aðeins fimmti ósigur Nadal á leirvelli í 151 leik á ferlinum frá árinu 2005 og hafði hann unnið 33 leiki á leirnum fyrir úrslitaleikinn í dag.

Sigurinn gefur Federer byr undir báða vængi fyrir opna franska meistaramótið sem hefst næsta sunnudag. Federer er í öðru sæti heimslistans á eftir Nadal.

Í kvennaflokki var það stigahæsta tenniskona heims, Dinara Safina frá Rússlandi, sem vann sigur. Hún vann þægilegan sigur á Caroline Wozniacki frá Danmörku í úrslitunum 6-2 og 6-4.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×