Fótbolti

Sonur minn mun aldrei spila fyrir Real Madrid

Messi hefur skorað 14 mörk fyrir Barcelona í 17 deildarleikjum í vetur
Messi hefur skorað 14 mörk fyrir Barcelona í 17 deildarleikjum í vetur AFP

Faðir argentínska snillingsins Lionel Messi hjá Barcelona segir ekki koma til greina að sonur hans verði peð í valdataflinu í kring um forsetakosningarnar hjá Real Madrid í sumar.

Messi hefur spilað mjög vel á leiktíðinni og er almennt álitinn einn besti knattspyrnumaður heimsins í dag.

Spænskir fjölmiðlar hafa gengið svo langt að ætla forsetaframbjóðandanum Florentino Pérez að nota Messi sem trompið til að ná aftur í forsetastól hjá Real Madrid.

Pérez lofaði stuðningsmönnum Real Madrid að krækja í Luis Figo frá Barcelona þegar hann tók við forsetaembætti hjá Real árið 2000 og náði merkilegt nokk að lokka Portúgalan yfir til erkifjendanna í einhverjum umdeildustu félagaskiptum í sögu spænsku knattspyrnunnar.

"Lionel er ánægður hjá Barcelona og félagið vill halda honum. Ég veit að hann vill ekki fara frá félaginu og hann mun aldrei fara til Real Madrid. Mér er alveg sama hvað þeir segja hjá Madrid - hann ræður þessu sjálfur og honum líður vel í Barcelona," sagði faðir hans í samtali við Mundo Deportivo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×