Sport

Michael Vick samdi við Philadelphia

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Michael Vick.
Michael Vick.

Leikstjórnandinn Michael Vick er laus úr fangelsi og hefur samið við Philadelphia Eagles. Hann mun leika með þeim næstu tvö árin.

Vick fær 1,6 milljónir dollara fyrir fyrra árið en gæti fengið 5,2 milljónir dollara fyrir annað árið samkvæmt heimildum ESPN.

Vick er af mörgum talinn einn hæfileikaríkasti leikmaður NFL-deildarinnar frá upphafi. Hann var valinn fyrstur í nýliðvalinu árið 2001 og var um tíma launahæsti leikmaður NFL-deildarinnar.

Hann var síðan dæmdur til fangelsisvistar árið 2007 fyrir að skipuleggja hundaat, rækta hunda til slagsmálanna og að fara illa með hundana yfir höfuð.

Eftir að hann var látinn laus fékk hann aftur leyfi til þess að spila í NFL-deildinni. Ekki veitir honum af þar sem hann varð gjaldþrota í fangelsinu.

Vick mun keppa við hinn öfluga Donovan McNabb um sæti í byrjunarliði Eagles en McNabb hefur leitt Eagles fimm sinnum í úrslit Þjóðardeildar og einu sinni í Super Bowl.

McNabb er nýbúinn að gera nýjan samning við Eagles og Vick mun því líklega byrja á bekknum en nærvera hans þar mun halda McNabb á tánum.

McNabb sagðist hafa hvatt félagið til þess að gera samning við Vick og er hæstánægður með komu hans þangað.

Hann segir alla eiga skilið annað tækifæri og segir að vel verði tekið á móti Vick í herbúðum Eagles.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×